Markvörðurinn Sveinn Óli semur til þriggja ára

Hinn stórefnilegi markvörður Sveinn Óli Guðnason hefur undirritað þriggja ára samning við knattspyrnudeild Þróttar. Sveinn Óli er ein af fjölmörgum vonarstjörnum yngra flokka Þróttar í knattspyrnu. Hann hefur æft með meistaraflokki karla upp á síðkastið, þrátt fyrir að vera fæddur árið 2000 og því einungis á sextánda ári. Sveinn Óli er ennþá gjaldgengur í 3. flokki, en bætist í vetur við yngsta árið í 2. flokki.

„Það er alltaf mikið gleðiefni þegar sómafólk af yngstu kynslóðinni skuldbindur sig til langframa í Þrótti. Sveinn Óli er stór, sterkur, sjálfsöruggur og kattliðugur. Hann hefur flesta þá kosti sem við leitum að í markvörðum og hefur alla möguleika á að bæta sig enn frekar með markvissri þjálfun og hnökralausri ástundun. Sveinn Óli bætist nú við ört stækkandi hóp af strákum og stelpum sem hafa undirritað samninga við Þrótt. Framtíðin er björt hérna í Laugardalnum, sem við köllum ekki að ástæðulausu hjartað í Reykjavík,“ segir Ótthar S. Edvardsson, framkvæmdastjóri Þróttar.