Tveir varnarmenn til Þróttar frá Breiðabliki og Val

Varnarmaðurinn Baldvin Sturluson hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Þróttar út tímabilið, en hann kemur til liðsins frá Val. Varnarmaðurinn Guðmundur Friðriksson hefur sömuleiðis skrifað undir samning við Þrótt, en hann kemur á láni út tímabilið frá Breiðabliki. Baldvin er 27 ára og Guðmundur 22 ára. Báðir eru bakverðir að upplagi, en hafa jafnframt látið til sín taka á miðjunni.

GREGG: HENTA OKKAR LEIKSTÍL FULLKOMLEGA
„Ég gæti ekki verið ánægðari. Báðir leikmenn eru frábærar viðbætur og henta leikstíl okkar fullkomlega. Þeir eru virkilega tilbúnir í slaginn og munu reynast Þrótti dýrmætir liðsmenn,“ segir Gregg Ryder, þjálfari Þróttar.

„Baldvin er reynslubolti með mikla reynslu af efstu deild. Hann er ekki bara afgerandi persónuleiki, heldur einnig gríðarlega sterkur líkamlega. Baldvin er kjarkaður og beinskeyttur í leik sínum. Guðmundur er tæknilega flinkur varnarmaður. Líður vel með boltann og er öruggur í aðgerðum, ásamt því að vera leifturfljótur, sem færir okkur nauðsynlega vídd í sóknarleikinn,“ bætir Gregg við.

BALDVIN: MIKIÐ SPUNNIÐ Í LIÐIÐ
Baldvin er uppalinn Stjörnumaður, en spilaði með Breiðabliki í eitt tímabil áður en hann skipti yfir í Val í fyrra. Baldvin er reynslumikill og ágætlega markheppinn miðað við varnarmenn, en hann á að baki 109 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 11 mörk.

„Ég er fullur tilhlökkunar að hefja seinni hluta Íslandsmótsins með Þrótti. Ég hef fylgst með leikjum Þróttar í sumar og veit að það er mikið spunnið í liðið. Gregg þjálfari var mjög áhugasamur um að fá mig til Þróttar og ég er afar ánægður með það. Mun leggja mitt af mörkum til þess að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum,“ segir Baldvin Sturluson.

GUÐMUNDUR: ÆTLA AÐ GEFA ALLT Í ÞETTA
Guðmundur er 22 ára gamall og á að baki tíu leiki með yngri landsliðum Íslands. Hann hefur spilað í meistaraflokki um fjögurra ára skeið og á þar að baki tæplega 40 leiki. Guðmundur er uppalinn í Ægi í Þorlákshöfn en kom til Breiðabliks árið 2009. Hann spilaði um hríð sem lánsmaður hjá bæði Augnabliki og Selfossi.

„Það gleður mig mikið að vera kominn i Þrótt. Maður hefur bara heyrt góða hluti um félagið og það er augljóst að Þróttur er klúbbur á uppleið. Mér líst mjög vel á hópinn og þjálfarateymið og er sannfærður um að liðið eigi nóg inni fyrir síðari helminginn. Ég ætla alla vega að gefa allt í þetta verkefni,“ segir Guðmundur Friðriksson.