Viktor Jónsson gerir þriggja ára samning við Þrótt

Viktor Jónsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Þrótt, en hann kemur til liðsins frá Víkingi. Gengið var endanlega frá samningum milli félaganna núna í morgunsárið, en Viktor skrifaði undir hjá Þrótti fyrir nokkrum dögum.

VIKTOR: 22 MÖRK Í 24 LEIKJUM HJÁ ÞRÓTTI
Viktor er fæddur 1994 og hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað með meistaraflokki Víkings í fimm keppnistímabil og hjá Þrótti í eitt. Hann á að baki 99 leiki í meistaraflokki þar sem hann hefur spilað frá sextán ára aldri. Hann hefur skorað 33 mörk í þessum leikjum, þar af 22 mörk í 24 mótsleikjum hjá Þrótti árið 2015 þegar hann var á láni frá Víkingi. Viktor skoraði 19 mörk í 1. deild það sumar og varð næstmarkahæstur. Hann hefur lengi verið meðal efnilegustu knattspyrnumanna landsins og á að baki nokkra landsleiki með U21 árs landsliði Íslands.

VIKTOR: „NÆSTA SUMAR VERÐUR SNILLD“
„Ég er virkilega spenntur fyrir því að vera kominn aftur í Laugardalinn. Gregg og allir þar — bæði leikmannahópurinn og starfsfólkið, en þó ekki síður Köttararnir sjálfir — gerðu þessa ákvörðun auðvelda. Fyrir mér snýst fótbolti miklu meira um hamingju og vellíðan heldur en nokkuð annað og ég var farinn að týna gleðinni svolítið. Ég ákvað því að fara aftur þangað sem mér leið svo vel og byggja mig upp á nýjan leik, þó svo að það þýði tímabundið skref aftur niður í fyrstu deild. Stundum þarf að taka skref aftur á bak og ná festu áður en maður stígur næstu skref fram á við. Og það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera með liðinu núna. Umgjörðin kringum Þrótt er fyrsta flokks. Hérna er hugsað einstaklega vel um leikmenn. Það er síðan stór plús að Þróttarar eru ávallt manni fleiri með Köttarana í stúkunni. Ég hlakka til að heyra stuðningsfólkið okkar syngja hærra en nokkru sinni fyrr. Næsta sumar verður snilld,“ segir Viktor Jónsson.

GREGG: ALGJÖRLEGA FRÁBÆR LEIKMAÐUR
„Það er vel þekkt staðreynd, að við glímdum við tvö höfuðvandamál síðastliðið sumar. Annars vegar fengum við á okkur alltof mörg mörk og þess vegna höfum við meðal annars bætt Grétari Sigfinni Sigurðarsyni og Hlyni Haukssyni í hópinn. Hins vegar skoruðum við ekki nægilega mörg mörk. Þetta var auðvitað afleit blanda. En nú höfum við ekki bara endursamið við Emil Atlason, heldur líka fengið markakónginn Viktor Jónsson til liðs við okkur til að tækla það vandamál. Viktor var algjörlega frábær hjá okkur sumarið 2015. Hann verður vonandi ennþá betri næsta sumar. Velkominn heim, Viktor. Nú hefst vinnan fyrir alvöru!“ segir Gregg Oliver Ryder, þjálfari Þróttar.

ÓTTHAR: VIKTOR OG EMIL? VEISLA!
„Ég hef lúmskan grun um að stuðningsmenn Þróttar eigi eftir að fagna þessum kappa oftar en flestum á næsta tímabili. Köttara-fjölskyldan gleðst í dag. Viktor er uppalinn Víkingur, en Laugardalurinn er hans annað heimili og Þróttur býður hann velkominn aftur heim. Viktor er fílsterkur og flinkur leikmaður, sem getur allt sem hann ætlar sér við réttar aðstæður. Þróttarar elska Viktor, enda ár og dagar síðan annar eins markakóngur spilaði hérna í hjartanu í Reykjavík. Hann er metinn að verðleikum, en auðvitað eru væntingarnar talsverðar. Kalt mat? Það verður veisla að fylgjast með Viktori og Emil næsta sumar. Ísland á alltof fáa leikmenn í þessum gæðaflokki,“ segir Ótthar Sólberg Edvarsson, framkvæmdastjóri Þróttar.