Málefni handknattleiksdeildar Þróttar

Í ljósi þeirrar umræðu sem upp er komin varðandi framtíð handboltans innan Þróttar í kjölfar ótímabærrar og rangrar tilkynningar handknattleiksdeildar félagsins til leikmanna meistaraflokks er rétt að taka af öll tvímæli í þeirri umræðu á samfélagsmiðlum og víðar um handboltann innan félagsins.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um að leggja niður handboltann í Þrótti og engin formleg umræða hefur farið fram innan aðalstjórnar Þróttar. Málefni handboltans í félaginu verða tekin fyrir á næsta fundi aðalstjórnar eftir páska.

Ítrekað hefur komið fram á undanförnum misserum og árum að handknattsleiksdeild Þróttar, sem og blakdeild, búa við algerlega óviðunandi aðstöðu í Laugardalshöll þar sem fjölmargir æfingatímar falla niður vegna annarra viðburða í húsinu, möguleikar á tekjuöflun eru afar takmarkaðir þar sem ekki er um að ræða eiginlegan heimavöll Þróttar og af þeim sökum hefur oft og tíðum gengið erfiðlega að fá fólk til starfa innan deildarinnar.  Á síðustu vikum hefur svo heimsfaraldur kórónaveiru haft veruleg áhrif á allan rekstur félagsins líkt og hjá öðrum og hefur aðalstjórn sem og deildir innan félagsins þurft að bregðast við með aðgerðum sem snúa að starfshlutföllum og launalækkunum hjá starfsmönnum, leikmönnum og þjálfurum félagsins.  Í þeim aðgerðum var m.a. óumflýjanlegt að segja upp starfsmanni handknattleiksdeildar sem var í fullu starfi hjá félaginu með eðlilegum uppsagnarfresti enda ljóst fyrir nokkru síðan að æfinga – og keppnistímabil allra aldursflokka, þ.m.t. í meistaraflokki, yrði ekki klárað með eðlilegum hætti að þessu sinni.  Sú ákvörðun hefur ekkert með það að gera að leggja niður handbolta innan félagsins og er það að sjálfsögðu von allra sem að koma að grundvöllur verði fyrir því áfram að starfrækja handboltastarf um ókomna tíð.  Það er verkefni bæði aðalstjórnar Þróttar og stjórnar handknattleiksdeildar að leita leiða til þess að svo megi vera og verður sú umræða tekin upp um leið og óvissu verður eytt eða nánari upplýsingar liggja fyrir er varða rekstrargrundvöll félagsins til lengri tíma í öllum deildum.   Lifi…..!