Þróttari vikunnar er Katrín Atladóttir tenniskona í Þrótti.

Katrín Atladóttir, 1980, hóf ung að æfa tennis með foreldrum sínum í Kópavogi. Árið 1989 flutti fjölskylda hennar í Langholtshverfið og komu foreldrar hennar að stofnun Tennisdeildar Þróttar. Á skömmum tíma voru lagðir tennisvellir við enda malarvallarins í Sæviðarsundi; og var fjölskylda Katrínar burðarás deildarinnar fyrstu árin.

Katrín átti farsælan feril með Þrótti, vann fjölda titla í barna- og unglingaflokki, ýmist í einliða- eða tvíliðaleik. Árið 1992 var hún kosin Tennismaður Þróttar. Árið 1994 lék Katrín svo A-landsleiki fyrir Íslands hönd, aðeins 14 ára gömul. Í kjölfarið lagði hún þó tennis spaðann, tímabundið, á hilluna og tók að æfa badminton. Á seinni árum hefur hún þó tekið spaðann fram að nýju, og leikur reglulega tennis hjá Þrótti.

Katrín hefur margar tengingar við félagið. Sem fyrr segir eru foreldrar hennar Atli Arason og Guðný Eiríksdóttir stofnendur tennisdeildar Þróttar og gegndu formennsku þar um langt skeið, Atli 1989 til 1994 og Guðný frá 1996 til 1997. Bróðir hennar Arnþór Ari lék fjölmarga leiki með yngri flokkum og meistaraflokki Þróttar í knattspyrnu og sonur Katrínar stundar nú knattspyrnu að krafti með 7. og 8. flokkum félagsins.

Á seinni árum hefur Katrín hellt sér út í pólitíkina og situr í Borgarstjórn Reykjavíkur.