Óskar Jón Guðmundsson hefur verið ráðinn sem yfirþjálfari handboltans hjá Þrótti en því felst m.a. að hann verður aðalþjálfari meistaraflokks auk þess að þjálfa í yngri flokkum félagsins.  Í starfinu felst jafnframt ákveðið utanumhald handboltans hjá félaginu, vinna við stefnumótun til næstu ára, skipulagningu æfinga, nýliðun og yfirumsjón með öllu yngri flokka starfinu.  Ráðning Óskars er hluti af endurskipulagningu á handknattleiksdeildinni sem aðalstjórn hefur haft frumkvæði að undanfarið.

Óskar Jón er 33 ára gamall og er Þrótturum kunnugur þar sem hann hefur áður þjálfað í allnokkur ár hjá félaginu og síðast veturinn 2014-2015 þegar hann var þjálfari meistaraflokks karla.  Hann hefur á síðustu misserum verið þjálfari og framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar Harðar á Ísafirði en snýr nú aftur til Þróttar og tekur við mikilvægu uppbyggingastarfi í félaginu.  Við bjóðum Óskar velkominn til baka í Hjartað í Reykjavík og eigum von á góðu og farsælu samstarfi.  Lifi…!