FRÉTTIR


 • Léttur andi á „Lambalærinu“ á föstudag.

  Þeir Óskar Bjarni Óskarsson, Þorbjörn Jensson og Árgeir Örn Hallgrímsson gerðu stormandi lukku á „Lambalærinu“ á föstudag, þegar þeir ræddu um landsliðið í handknattleik sem hóf leik þann sama dag á HM sem haldið er í Danmörku og Þýskalandi. Þeir komu mjög vel undirbúnir og voru ekki sérstaklega sammála um væntanlegt gengi liðsins sem og liða hinna Íslensku þjálfaranna á mótinu. Þeir voru þó sammála um það að þetta sé framtíðarlið okkar til a.m.k. fimm næstu áranna.

  Mikil þátttaka var og þurfti að bæta við borðum, sem er að sjálfsögðu góð tíðindi en slæmt er að vita ekki hve margir ætla að mæta þegar maturinn er pantaður. Þetta slapp fyrir horn núna en við viljum hvetja menn til að láta vita af sér í tíma í framtíðinni. Vegna tafa við að bæta við borðum og öðrum mataráhöldum gafst ekki tími til að gefa mönnum tækifæri á að spyrja gestina nokkurra spurninga því við viljum ekki verða valdir að því að menn verði seinir til vinnu eftir hádegishléið.

  sjá myndir.

  Lesa meira

  Úrslitin í skákinni mánudaginn 7.janúar.

  Í lengri skákunum urðu úrslit sem hér segir: Jón vann Júlíus, Bragi vann Theodór en skák Davíðs og Helga var frestað. Sigurður sat yfir. Þá var tefld frestuð skák milli Óla Viðars og Júlíusar úr 4.umferð og lauk henni með jafntefli. Þeir Davíð og Sigurður eru efstir og jafnir með þrjá vinninga eftir fjórar umferðir.
  Í hraðskákinni varð Sigurður hlutskarpastur með 6,5 vinninga í sjö skákum, annar varð Júlíus með 6 vinninga og þriðji varð Bragi með 4 vinninga. Síðan komu þrír með 3 vinninga, þeir Davíð, Óli Viðar og Theodór. Eftir fimm umferðir er Júlíus efstur með 26,5 stig og Sigurður annar með 22 stig.

  Næst verður teflt 21.janúar.

  Þróttari vikunnar

  Þróttari vikunnar að þessu sinni er blakarinn Eldey Hrafnsdóttir. Eldey leikur með meistaraflokki Þróttar í blaki og er þrátt fyrir ungan aldur einn af máttarstólpum liðsins. Hún var valinn íþróttamaður Þróttar árið 2017. Eldey, sem er fædd árið 2000, lék sinn fyrsta A-landsleik í síðustu viku. Við ramman reip var að draga en íslenska liðið beið lægri hlut gegn sterkum liðum Slóvena og Belga í undankeppni Evrópumótsins. Eldey var ánægð með frumraun sína og sagði við það tækifæri: „Það var alveg magnað að fá að spila með þessum hóp af íþróttakonum, sem ég hef litið upp til síðan ég var yngri.“

  Eldey á að baki 34 landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Hún hefur í gegnum tíðina einkum leikið á miðjunni, en á þessu tímabili hefur hún fært sig í stöðu díó-kantmanns og fundið sig einstaklega vel í þeirri vandasömu stöðu. Meðalaldur meistaraflokks Þróttar er ekki hár, en Eldey er þó bjartsýn á gengi liðsins í ár. Tvíburasystur hennar leika einnig með liðinu, rétt 15 ára gamlar. Eldey segir að það sé gaman að fylgjast með systrum sínum bæta getu sína og bætir við: „Þær eru báðar komnar mun lengra en ég þegar ég var á þeirra aldri.“ Við það má svo bæta að móðir þeirra systra er allt í öllu í yngra flokka starfi blakdeildar Þróttar.

  Á síðustu árum hafa ungir og efnilegir íslenskir blakarar farið í atvinnumennsku, og við spyrjum því Eldey hvort það sé eitthvað sem hún hafi leitt huganna að. Um það segir hún: „Það væri frábær reynsla og upplifun að reyna að spreyta sig úti, en eins og er langar mig að vera hér heima og spila með Þrótti meðan ég klára menntaskóla. En það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni.“


STYRKTARAÐILAR

 • coca-cola_european_partners-square
 • holdur-125x125
 • Þróttur-lyklar


 • 125-vismot
 • 125-reycup-siminn