FRÉTTIR


 • Þróttari vikunnar

  Þróttari vikunnar að þessu sinni er Axel Axelsson, fyrsti landsliðsmaður Þróttar í knattspyrnu.

  Axel Axelsson,1942 -, hóf að æfa knattspyrnu og handknattleik í 3.flokki Þróttar, þrátt fyrir að búa austast í borginni. Hann segist aðspurður aldrei hafa séð eftir því að hafa gengið til liðs við félagið. Hann varð fljótt áberandi í knattspyrnuliðum félagsins vegna hraða síns og leikni og var fyrirliði 2.flokks 1961 þegar liðið gerði sér lítið fyrir og vann bæði Reykjavíkurmótið og Íslandsmótið, en þar þurfti tvo úrslitaleiki gegn ÍBV til að knýja fram úrslit og var báðum leikjunum útvarpað, en það hefur ekki verið endurtekið síðan. Axel varð síðan fyrsti landsliðsmaður Þróttar, í knattspyrnu, 1963 og tók m.a. þátt í undankeppni Olympíuleikanna.

  Þjálfun heillaði hann og urðu þeir margir flokkarnir sem hann stjórnaði í báðum íþróttagreinunum, auk stjórnarstarfa og þá var hann ólatur þegar beita þurfti smíðaverkfærunum í þágu félagsins. Axel hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar fyrir störf sín í þágu félagsins.

  Á meðfylgjandi mynd sést Axel lyfta fílnum, lukkudýri Þróttar á þeim árum. Með honum á myndinni er Guðmundur bróðir hans.

  Þróttari vikunnar

  Þróttari vikunnar að þessu sinni er fjórði formaður Þróttar, Garðar Óskar Pétursson.

  Garðar Óskar Pétursson, 1906 – 1988 , varð fjórði formaður félagsins árið 1955 og gegndi því starfi í fimm ár en eftir það sat hann í aðalstjórn í önnur 15 ár, öll árin sem varaformaður og var ómetanlegur sem slíkur.  Upphafið að starfi Óskars, eins og hann var alltaf kallaður, var það að félagið vantaði mann í undirmótanefnd og tveir vinnufélagar hans í Vélsmiðjunni Héðni föluðust eftir að fá að nota nafn hans í þá nefnd sem starfaði ekki mjög mikið.  Óskar lét tilleiðast og eftir það varð ekki aftur snúið.

  Óskar var á kafi í skátastarfi á þessum tíma og var í efstu röðum skáta á Íslandi.  Það var því nóg að gera á þeim bænum.  Árið 1954 varð hann fulltrúi félagsins í Knattspyrnuráði Reykjavíkur og sat þar í nokkur ár. 

  Óskar fæddist á Ísafirði 2.desember 1906 og var því annar formaður Þróttar frá þeim bæ. Þegar félagið flutti af Grímsstaðaholtinu inn í Sæviðarsund, hverfið hans Óskars, en hann bjó á Langholtsveginum, varð hann nokkurs konar framkvæmdastjóri uppbyggingarinnar á svæðinu, án launa, og var hann þar öllum stundum. 

  Óskar lést 8.nóvember á 83 aldursári og í minningargrein um hann sagði Tryggvi E. Geirsson þáverandi formaður: „Með árunum varð Óskar samnefnari allra Þróttara, dáður og virtur af öllum.  Það var mannbætandi að umgangast slíkan mann sem Óskar.“ Hann var gerður heiðursfélagi Þróttar á sjötugsafmæli sínu 1976 og hlotnaðist að auki allar æðstu heiðursveitingar innan íþróttahreyfingarinnar.

  Sögu- og minjanefnd

  Nú í lok síðasta árs skipaði aðalstjórn félagsins sérstaka sögu- og minjanefnd í tilefni af 70 ára afmælis félagsins 2019. Markmið nefndarinnar er að safna, skrá og miðla sögu félagsins; hvort sem um er að ræða muni, skjöl, myndir eða annað sem tengist sögu félagsins. Í nefndinni sitja Helgi Þorvaldsson, Sigurður K. Sveinbjörnsson, Gunnar Baldursson, Sölvi Óskarsson og Sigurlaugur Ingólfsson; sem er formaður hennar.

  Á næstu vikum mun nefndin leitast eftir að hafa upp á munum og öðru því sem tengist sögu félagsins; og geta áhugasamir Þróttarar sem eiga í fórum sínum muni haft samband við formann nefndarinnar á tölvupóstfanginu sigurlaugur.ingolfsson@reykjavik.is.


STYRKTARAÐILAR

 • coca-cola_european_partners-square
 • holdur-125x125
 • Þróttur-lyklar


 • 125-vismot
 • 125-reycup-siminn