FRÉTTIR


 • Uppskeruhátíð yngri flokka Knattspyrnudeildar sunnudaginn 15. september

  eyjar2

  Uppskeruhátíð yngri flokka verður í Þróttarheimilinu sunnudaginn 15. september í þremur hollum:

  kl. 12:30 til 13:30
  8 og 7 flokkur karla og kvenna

  kl. 14:00 til 15:00
  6 og 5 flokkur karla og kvenna

  kl. 15:30 til 16:30
  4 og 3 flokkur karla og kvenna

  Aðstandendur eru beðnir um að koma með veitingar á hlaðborð (kleinur, kökur, flatkökur osfrv en ekki drykki) 30-60 min fyrir það holl sem þeirra iðkandi/iðkendur tilheyra.

  Veitt verða verðlaun í flokkunum ásamt því að farið verður yfir starf tímabilsins.

  Með kveðju

  Barna- og unglingaráð Knattspyrnudeildar

  Ingvi Sveinsson ráðinn yfirþjálfari yngri flokka!

  Barna – og Unglingaráð Knattspyrnudeildar Þróttar hefur samið við Ingva Sveinsson grunnskólakennara og knattspyrnuþjálfara um að vera yfirþjálfari yngriflokkastarfs félagsins til næstu tveggja ára. Ingvi er Þrótturum að góðu kunnur. Hann spilaði upp alla yngri flokka félagsins og lék auk þess lengi með meistaraflokki félagsins. Ingvi hefur þjálfað hjá Þrótti í tæpa tvo áratugi.

  Lifi Þróttur!

  Á meðfylgjandi myndum má sjá Ingva og Sigurbjörn Jónasson formann BUR undirrita samninginn.
  ingvi 2
  ingvi 1

  Köttarar grilla í upphitun fyrir Ísland-Albanía

  Hinir ódrepandi og síglöðu Köttarar ætla að hita upp í félagsheimili Þróttar fyrir landsleik Íslands og Albaníu á þriðjudag. Það er ástæða til að hvetja allt knattspyrnuáhugafólk til að fjölmenna þangað í skemmtilega samveru og taka jafnvel vini og vandamenn með!

   

  Ljúffengir Konnaborgarar grillaðir frá kl. 17:00. Ískaldar veitingar við hæfi lúra á kantinum. Ónefnd ofurhetja úr íslenska boltanum lítur við um kl. 18:00 og fer yfir liðið og líklegt leikskipulag. Sýndir verða hápunktar úr síðustu leikjum liðsins. Leikurinn sjálfur sýndur á skjá fyrir þau ykkar sem voru svo óheppin að ná ekki í miða áður en uppselt var. Opið hús.

  Þróttarar gengu saman

  Í gær, 8. september, gengu Þróttarar fylktu liði um bernskuslóðir Þróttar í Vesturbænum. Fyrir göngunni fóru fjórir vaskir göngustjórar þeir, Jón Birgir Pétursson, Gunnar Baldursson, Helgi Þorvaldsson og Sölvi Óskarsson. Ganga hófst við minnisvarða um stofnun Þróttar við Ægisíðu, en þar stóð forðum braggi sem var fyrsta félagsheimili Þróttar. Því næst var gengið um Fálkagötu sem leið lá að Suðurgötu. Þar var beygt inn Þrastargötu en göngunni lauk þar sem hús þeirra Halldórs fisksala, stofnanda Þróttar, og konu hans Jósefínu á Nauthól stóð.

  ganga_2013

  Þegar komið var á endastöð var göngufólki boðið upp á smá hressingu og ekki eru menn frá því að sjálf Jósefína á Nauthól hafi látið sjá sig. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá jafn marga mæta í gönguna, trúlegast á bilinu 70-90 manns.

  Að því loknu héldu allir rakleitt niður í Laugardal, þar sem Þróttur bauð til kaffisamsætis. Þar voru haldnar tölur og félaginu veittar ýmsar gjafir í tilefni göngunnar. Ennfremur voru fjórir Þróttarar sæmdir gullmerki félagsins, þeir Axel Axelsson, Erling Ó. Sigurðsson, Haukur Þorvaldsson og Jón M. Björgvinsson. Allt voru þetta fræknir kappar í árdaga félagsins, bæði sem knattspyrnu- og handknattleiksmenn; auk þess að sinna ýmsum stjórnarstörfum fyrir félagið. Eru þeir vel að heiðrinum komnir.

  gullmerki_2013

  Svo vel tókst til að sú hugmynd kom upp að efna aftur til sögugöngu á næsta ári og ganga þá um slóðir Þróttar inn við Sund.

  kaffisamsaeti_2013

  Þær myndir sem fylgja fréttinni tók Gunnar Baldursson.


STYRKTARAÐILAR

 • coca-cola_european_partners-square
 • holdur-125x125


 • 125-vismot
 • 125-reycup-siminn