Þróttari vikunnar er Ásgeir Elíasson, fyrrum þjálfari Þróttar.

Ásgeir Elíasson, 1949-2007, þjálfaði meistaraflokk karla í knattspyrnu fyrst á árunum 1981 til 1984 og svo aftur frá 2000 til 2005.  Ásgeir var frábær knattspyrnumaður og lék lengst af með uppeldisfélagi sínu Fram.  Hann var spilandi þjálfari Þróttar á fyrra skeiði sínu, og þrátt fyrir að vera kominn á síðari hluta knattspyrnuferilsins þá var hann valinn í íslenska landsliðið á þessum árum.  Alls lék hann 32 A-landsleiki á árunum 1970-1984.  Hann var fjölhæfur íþróttamaður og lék t.a.m. tvo landsleiki í handbolta auk þess að leika landsleiki í blaki.

Hann hafði áður þjálfað ÍR 1974, Víking Ólafsvík 1975 og FH 1980; en segja má að frábær ferill hans sem þjálfara hafa hafist fyrir alvöru hjá Þrótti.  Honum tókst að koma Þrótti upp í efstu deild í annarri tilraun árið 1982.  Þróttur lék undir stjórn Ásgeirs í efstu deild 1983 og 1984.  Frá Þrótti lá leiðin aftur í Fram, og stýrði Ásgeir liðinu til sigurs á Íslandsmótinu 1986, 1988 og 1990 auk þess sem liðið varð bikarmeistari 1985, 1987 og 1989.  Eftir velgegni Ásgeirs hjá Fram var næsta skref að taka við Íslenska landsliðinu.  Ásgeir þótti djarfur þegar hann stillti upp liðinu með það í huga að leika boltanum með jörðinni, en fram að því var venjan að íslenska landsliðið léki boltanum langt.  Árangur hans var góður, og raunar besti árangur landsliðsþjálfara Íslands fram að þeim tíma.

Eftir að ferli hans sem landsliðsþjálfara lauk árið 1996 tók hann að nýju við Fram liðinu, sem þá lék í B-deild.  Eftir þrjú ár við stjórnvölinn hjá Fram lá leiðin aftur í Þrótt, árið 2000.  Liðið stóð á krossgötum, stór hluti af liðinu hafði horfið á braut og uppistaðan ungir leikmenn.  Þróttur rétt slapp við fall fyrsta sumarið, en svo lá leiðin upp á við.  Liðið var hársbreidd frá því að komast í úrvalsdeildina 2001, en tókst að ná því markmiði árið eftir.  Sumarið 2003 er flestum eftirminnilegt, enda Þróttur í efsta sæti þegar mótið var hálfnað.  Því miður tókst liðinu ekki að halda sæti sínu í deildinni, þrátt fyrir að hafa náð í 22 stig, en ekkert lið hefur fallið með jafn mörg stig og Þróttur. Ásgeiri tókst að koma liðinu aftur í efstu deild árið eftir, en eftir slakt gengi framan af sumri 2005 skyldu leiðir.

Ásgeir snéri aftur í Fram ári eftir en að þessu sinni var dvölin ekki nema eitt ár.  Hann var þjálfari ÍR þegar hann varð bráðkvaddur sumarið 2007.

Leikmenn minnast Ásgeirs sem afar rólegum og hlýjum manni.  Hann var ekki mikið fyrir að öskra á leikmenn sína, lagði fremur allt kapp á að finna lausnir í leik liðsins og leiðbeina leikmönnum á yfirvegaðan hátt.  Við fráfall hans var hans sárt saknað í fótboltaheiminum enda líflegur karakter sem setti sterkan svip á leikinn; oftar en ekki með veiðihúfuna frægu þar sem hann sat ofan á varamannaskýlinu til að fá betra útsýni yfir völlinn.

Ásgeir hefði fagnað 70 ára afmæli sínu þann 22. nóvember.