Þróttari vikunnar er Erling Ó. Sigurðsson, handboltamaður í Þrótti.

Erling Ó. Sigurðsson, 1942-, er einn af þessum Þrótturum sem alltaf voru að, hvort sem það voru stjórnarstörf eða þjálfun, í handboltanum.  Hann hélt Handknattleiksdeildinni gangandi ár eftir ár án þess þó að verða nokkurn tímann formaður hennar. Hann kom frá alræmdu K.R.-heimili og fyrstu sporin steig hann í fótbolta hjá Þrótti en þaðan lá leiðin í handboltann 1963 og þar lék hann hátt á þriðja hundrað leiki með meistaraflokki. 

Hann þótti harður í horn að taka og þótti mörgum betra að hafa hann með sér í liði en á móti. Hann þjálfaði bæði í yngri flokkum karla og kvenna og síðustu ár sín í meistaraflokknum lék hann með mörgum þeirra pilta sem hann hafði þjálfað einhvern tímann á þeirra ferli í Þrótti. Ekki vann Elli Sig, eins og hann er alltaf kallaður, marga sigra með Þrótti og segist hann eiga fleiri verðlaunapeninga í golfi en í handboltanum.  Erling á eitt stórt áhugamál, fyrir utan handboltann, en það er hestamennskan og eru þeir ófáir hestarnir sem hann hefur tamið um æfina.

Hann hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar fyrir störf sín fyrir félagið.