Þróttari vikunnar er Gunnar R. Ingvarsson, knattspyrnumaður, þjálfari og dómari hjá Þrótti.

Gunnar Randver Ingvarsson, 1944-, hóf að æfa knattspyrnu með Þrótti á sjötta áratug síðustu aldar.  Hann var í hinu sigursæla liði 2.flokks sem sigraði bæði á Reykjavíkur- og Íslandsmótunum 1961 og þá var hann einn af fyrstu Reykjavíkurmeisturum Þróttar í meistaraflokki 1966.  Hann lék lengst af sem hægri bakvörður og gerði þeirri stöðu mjög góð skil.  Hann var mjög þrautseigur og til dæmis um það þá eyddi hann mestu af fyrsta ári sínu í meistaraflokki á bekknum, en lét það ekki á sig fá og lék 238 leiki og varð leikjahæsti leikmaður Þróttar áður en ferlinum lauk.   Aðeins þrír leikmenn hafa náð þeim titli síðan.

Gunnar tók fljótlega að þjálfa yngri flokka félagsins, með góðum árangri, þjálfaði 4. og 5.flokk á árunum 1977 – 1981 og síðan 2.flokk 1984 – 1986.  Þá var hann þjálfari meistaraflokks 1987.

Gunnar tók dómarapróf 1975, en dæmdi hóflega fyrst um sinn.  Hann hlaut landsdómarapróf 1986 og jók eftir það störfin til muna og dæmdi lengi í efstu deildunum.

Gunnar hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og silfurmerki KSÍ fyrir störf sín.  Það má til gamans geta þess að Gunnar var einn af bestu glímumönnum Íslands samhliða því að leika og starfa með Þrótti.