Þróttari vikunnar er Páll Ólafsson, fyrrum handbolta- og knattspyrnumaður í Þrótti.

Páll Ólafsson, 1960-, gekk til liðs við Þrótt þegar félagið haslaði sér völl í Sæviðarsundinu.  Hann er eitthvert almesta efni sem klæðst hefur Þróttarbúningnum, bæði í handknattleik og knattspyrnu, leikinn og með góðan leikskilning.  Hann beið ekki boðanna með að hefja titlasöfnunina með félaginu en strax 1972 varð hann Reykjavíkurmeistari í knattspyrnu og næstu árin á eftir komu titlarnir nánast árlega og í öllum árgöngum.  Stærstu árin eru eflaust 1977, þegar hann varð bæði Reykjavíkur- og Íslandsmeistari með 2.flokki og var í sigurliði meistaraflokks í B-deildinni.  Hann var aftur í sigurliði þegar Þróttur vann B-deildina 1982 og einnig varð hann Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í innanhússknattspyrnu 1984.  Páll leik alls 159 leiki í meistaraflokki félagsins, þar af 83 í A-deildinni þar sem hann skoraði 29 mörk og hefur enginn Þróttari náð því meti síðan.  Hann var allan sinn feril meðal markahæstu leikmanna.  Hann var valinn til að leika fyrir Íslands hönd í U-16 og U-18 ára landsliðunum og þá á hann 2 leiki með A-landsliðinu.

Það var mikil eftirsjá af Páli úr knattspyrnunni, þegar hann ákvað að snúa sér alfarið að handknattleiknum.  Í handknattleiknum var hann ekki síður sigursæll og vann marga titla þó ekki væru þeir eins margir og í knattspyrnunni en einn af þeim stærri er örugglega Íslandsmeistaratitillinn í 3.flokki 1976 að ekki sé talað um Bikarmeistaratitillinn 1981 sem var stórkostlegur sigur og ekki skemmdi það fyrir að vinna sér inn þátttökurétt í Evrópukeppni bikarhafa árið á eftir þar sem liðið gerði sér lítið fyrir og komst í fjögurra liða úrslit.

Páll var valinn í U-18 og U-21 landsliðin í handboltanum og síðan lá leiðin í A-landsliðið þar sem hann lék 174 leiki og skoraði 418 mörk.  Hann vakti fljótt áhuga erlendra stórliða og lék um árabil með þýsku liðunum Dankersen og Dusseldorf.  Hann er einnig mjög góður golfari.

Páll hefur verið sæmdur gullmerki HSÍ.