Þróttari vikunnar er Snjólaug Bjarnadóttir, blakkona í Þrótti.

Snjólaug Elín Bjarnadóttir, 1958, hóf ung að iðka blak hjá Þrótti. Hún kynntist íþróttinni í gegnum leikfimikennara MS sem sjálf æfði með Þrótti, og þá var ekki aftur snúið og blakið varð „íþróttin mín“, eins og hún segir sjálf frá. Snjólaug lék með meistaraflokki Þróttar frá 1974 til 1991, þó með hléum. Á árunum 1978-1980 stundaði hún nám við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og lék undir merkjum Ungmennafélags Laugdæla; eins og raunar margir blakarar í Þrótti í gegnum tíðina. Á árunum 1982-83 lék hún í Noregi er hún var við nám í norska íþróttaháskólanum.

Lið Þróttar var sterkt á þessum árum og m.a. Íslandsmeistarar 1983, auk fjölda annarra titla. Snjólaug minnist þessa tíma með hlýju, sérstaklega allar keppnisferðirnar út á land og svo „voru það öll frábæru Þróttara blakpartýin, sem voru haldin með ýmsum skemmtilegheitum.“ Á glæsilegum ferli lék hún 38 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, þ.m.t. á Smáþjóðaleikum á Möltu.

Haustið 1991 stóð hins vegar svo á, að Þróttar stúlkur náðu ekki í lið. Snólaug hafði þá leikið 199 leiki fyrir meistaraflokk. Hún lék þó áfram blak næstu árin fyrir önnur félög eða fram til 2000; og þá síðustu árin fyrir Víking. Hún er þó virk í öldungablaki enn þann dag í dag, með arftökum Stjörnunnar, Álftanesi.

Þó blakið hafi óneitanlega verið hennar helsta íþrótt þá hafa aðrar íþróttir einnig heillað, m.a. golf og ekki síður fjallgöngur en á þessu ári hefur Snjólaug ferðast um Inkaslóðir í Perú ásamt því að klífa hæsta fjall Norður-Afríku, Toubkal í Marokkó.

Á meðfylgjandi mynd sést Snjólaug með bikarinn , sem Þróttarstúlkur unnu 1988, þegar þær urðu Bikarmeistarar.