Þróttari vikunnar

Þróttari vikunnar er Jens Karlsson, fyrrum knattspyrnumaður í Þrótti.

Jens Karlsson, 1938-, er einn þeirra manna sem starfað hafa fyrir Þrótt allt frá fyrstu árum félagsins.  Hann var kominn yfir fermingu þegar hann birtist á sinni fyrstu fótboltaæfingu með 3.flokki.  Það þótti ekki góð latína að byrja svo seint þannig að Jens var ekki spáð frama.  Hann átti þó eftir að verða einn af betri knattspyrnumönnum félagsins.  Jens segir að Bjarni Bjarnason fv. formaður hafi „platað“ sig og Björn bróður sinn í Þrótt. 

Jens var fljótur að komast í meistaraflokk félagsins og lék þar á árunum 1955 til 1971.  Hann var lengi leikjahæstur Þróttara í knattspyrnunni með 213 leiki, þótt ekki væru margir leikir leiknir árlega á þessum tíma.  Þá var hann oft valinn til að leika með úrvalsliði Reykjavíkur, en bæjarkeppni sú var háð árlega.

Þrisvar var hann í Þróttarliði sem hífði félagið upp í efstu deild, það var 1958, 1963 og 1965.  Jens lét ekki knattspyrnuna eina nægja og lék einnig 97 leiki með handknattleiksliði félagsins.  Hann var í meira en áratug fulltrúi félagsins í KRR og starfaði mjög vel.  Síðast en ekki síst hefur Jens verið endurskoðandi reikninga félagsins í áratugi.  Hann hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og KRR.