Þróttari vikunnar

Guðmundur Gústafsson, 1935-, hóf iðkun handknttleiks og knattspyrnu strax á fyrstu árum félagsins og er kominn í meistaraflokk í báðum greinunum 1954.  Knattspyrnuferillinn varð mun styttri en þó náði hann að leika 19 leiki í meistaraflokki, þar af 10 í efstu deild og síðasta ár hans í fótboltanum 1958 var hann í sigurliði félagsins sem sigraði í b-deildinni og vann sér þátttökurétt með þeim bestu árið eftir.  Aðeins voru leiknir 4 – 5 leikir á ári á þessum tíma. 

Handknattleiksferill Guðmundar varð miklu lengri, hann var í liði meistaraflokks sem vann sigur í 2.deild 1954 og þar með rétt til að leika í 1.deild árið eftir.  Guðmundur varði mark félagsins af stakri prýði í um tvo áratugi í yfir 200 leikjum. Hann var oft valinn í úrvalslið og kórónaði það með því að vera valinn í landslið Íslands tímabilið 1967-68 og varð með því fyrsti Þróttarinn til að leika með karlalandsliðinu.  Guðmundur hefur verið sæmdur gullmerki félagsins. 

Systir Guðmundar, Katrín var landsliðskona í handknattleik og var valinn Þróttari vikunnar fyrir ekki svo löngu auk þess sem sonur hans Guðmundur Páll lék fjölda leikja með Þrótti í blaki.