Þróttari vikunnar er Jón Magnússon, fyrrum knattspyrnumaður og stjórnarmaður í Þrótti.

Jón Magnússon og fyrir framan hann situr Börge Jónsson.

Jón Magnús Magnússon, 1939-, var með frá byrjun í knattspyrnunni og átti góðu gengi að fagna sem „stormsenter“ en það nafn festist á honum vegna þess hve grimmur hann var í vítateig andstæðinganna og fylginn sér.  Hann lék upp alla flokka og þar með yfir 50 leiki í meistaraflokki.

Hann starfaði mikið í félagsmálum og var formaður knattspyrnudeildar í þrjú ár og sat auk þess í aðalstjórn félagsins í fjögur ár.  Þá þjálfaði hann meistaraflokkinn árið 1965 og undir hans stjórn vann flokkurinn B-deildina og öðlaðist við það keppnisrétt í A-deild 1966.  Þegar félagið flutti í Sæviðarsundið var hann fremstur í flokki við að innrétta hús það sem flutt var á svæðið og notað var sem félagsheimili um tíu ára skeið.  Jón lagði bæði heitt og kalt vatn í húsið og þóttu sturturnar þær bestu í borginni. 

Jón hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar.