Þróttari vikunnar er Gunnar Baldursson, eða Gunni Bald, þúsund þjala smiður félagsins.

Image result for gunnar baldursson

Gunnar H. Baldursson, 1947-, gekk ungur í Þrótt og lék upp alla yngri flokkana í knattspyrnu og hefur verið viðloðandi félagið alla tíð síðan.  M.a. var hann í forsvari fyrir sameinað lið Þróttar og Hauka í kvennaknattspyrnunni 2003, en þá lék liðið í A-deild.

Hann hefur verið formaður HM-hópsins sem hefur s.l. átta ár staðið fyrir „Lambalæri að hætti mömmu“ og er styrktarklúbbur fyrir málefni innan Þróttar.  Þar hefur Gunnar séð um að fá ræðumenn til að mæta og eru þeir nú komnir á tíunda tuginn og ekkert lát á.  Hann stjórnar samkomunum einnig og sér til þess að tímamörk séu haldin.

Gunnar hefur verið leikmyndahönnuður RUV um langa tíð og er margverðlaunaður fyrir það, m.a. fékk hann heiðurs-EDDUNA 2017.  Þau eru ófá hönnunarverkefnin sem hann hefur tekið að sér fyrir Þrótt og það nýjasta og jafnframt stærsta er sögu- og minjasýningin, í tilefni 70 ára afmælis félagsins, sem nú er yfirstandandi í félagsheimilinu.  Hann breytti félagsmerkinu í það horf sem það er í nú, en áður voru engar rendur í merkinu. Hann er alltaf boðinn og búinn til að hlaupa í margs konar verkefni fyrir félagið, stór sem smá.

Gunnar hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, Hauka og KSÍ fyrir störf sín.