Þróttari vikunnar er Jórunn Frímannsdóttir, 14. formaður Þróttar.

Image result for jórunn frímannsdóttir

Jórunn Frímannsdóttir, 1968, var formaður Þróttar frá 2008 til 2012. Kynni hennar af Þrótti hófust um aldamótin þegar Þróttur festi rætur í Laugarnesinu, en þar bjó hún ásamt fjölskyldu sinni. Laugarnesið var á þessum árum rótgróið Framhverfi, hún sjálf Framari í grunninn, og hafði m.a. leikið knattspyrnu með Fram um árabil á yngri árum, auk þess sem börn hennar æfðu íþróttir með Fram. En eins hún segir sjálf þá var ekkert annað hvægt en að flytja börnin í Þrótt, „enda Þróttur kominn í túnfótinn“. Jórunn var virk í foreldrastarfi félgasins og fylgdi börnum sínum upp yngri flokkana. Hún vakti athygli innan félagsins og árið 2008 leitaði þáverandi formaður, Kristinn Einarsson, til hennar með að taka að sér stjórn félagsins. Jórunn hafði reynslu af stjórnarstörfum og fannst það bæði heiður og skylda að taka þeirri áskorun.

Formannstíð Jórunnar bar upp á erfiðum tímum, efnahagshrun hafði orðið í landinu og loforð um styrki höfðu víða gufað upp. Þegar hún horfir til baka segir hún að verkefnið hafi verið krefjandi og stundum hafi þurft að taka óvinsælar ákvarðanir. En það sem mestu skiptir að Þróttur hélt sjó og rétti úr kútnum, og átti Jórunn og aðalstjórn stóran þátt í því. Um þessi ár segir hún: „Ég tók á fjármálunum, vildi fara nýjar leiðir og leggja áherslu á yngri flokka starfið og að fjármálin gengi upp.“

Þó hún hafi unnið flest sín afrek á íþróttavellinum með Fram má nefna að þegar hún kom í Þrótt stofnaði hún og fleiri mæður í félaginu félagsskapinn Andspyrnu og stunduðu knattspyrnu einu sinni í viku um árabil.