Þróttari vikunnar er Leifur Harðarson, leikmaður bæði í fótbolta og blaki, þjálfari í blaki og alþjóðadómari í sömu íþrótt.

Leifur Harðarson, 1957, hóf sinn íþróttaferil með Þrótti sem knattspyrnumaður og lék yfir 60 leiki með meistaraflokki Þrótti. Á sama tíma lék bróðir hans, Daði, með meistaraflokki Þróttar og lék yfir 300 leiki  og raunar nokkra blakleiki einnig.

Á þessum árum var knattspyrna einkum iðkuð á sumrin og því voru margir sem léku aðra íþrótt yfir vetrartímann og í tilviki Leifs var það blakið sem varð fyrir valinu. Um það val segir hann: „Í Vogaskóla þurftu við nemendur í efsta bekk að velja fög til að fylla í stundaskránna. Þar stóð til boða vélritun, keramik, auka enska og ýmislegt annað heldur leiðinlegt, en í lokin stóð, önnur fög ef einhver kennaranna treysti sér til að kenna það, og fleiri en tíu nemendur velja“. Úr varð að Guðmundur Arnaldsson tók að sér að kenna blak og veturinn 1973-74 urðu nemendur í Vogaskóla grunnskólameistarar í blaki. Á sama tíma voru nýútskrifaðir íþróttakennarar að flytja frá Laugavatni í bæinn og stofnuðu blakdeild Þróttar, og þá lá beinast við að Leifur héldi blakiðkun áfram.

Leifur hefur síðan leikið yfir 500 blakleiki fyrir Þrótt. Hann flutti sig yfir á Laugarvatn í tvö ár, þegar hann sótti nám við Íþróttakennaraskólann, og lék með Ungmennafélagi Laugvetning, og varð tvívegis Íslandsmeistarar. Að námi loknu lá leiðin aftur í Þrótt og Leifur tók þátt í ótrúlegri sigurgöngu meistaraflokks sem unnu alla stóru titlanna í blaki á mikilli sigurgöngu liðsins frá 1981 til 1987. Um þetta tímabil segir Leifur: „Andstæðingar okkar virtust ekki trúa því að við gætum tapað, rétt eins og við gerðum“.

Þegar leikferlinum lauk tók við þjálfun meistaraflokks, og undir stjórn Leifs átti Þróttur aðra gullöld á 10. áratugnum. Samhliða þessu dæmdi Leifur í fjölda mörg ár, og var lengi alþjóðadómari Íslands í blaki eða allt þar hann varð 55 ára, en það er hámarks aldur alþjóðablaksambandsins til að dæma á alþjóðavísu.

Þeir sem hafa leikið með eða undir stjórn Leifs vita að hann segir skemmtilega frá. Við báðum hann því um eina gamansögu af löngum ferli. Ekki stóð á svörum: „Þegar ég hugsa um skemmtilegar sögur frá keppnisárunum kemur alltaf sama nafnið upp: JASON ÍVARSSON“.

„Eitt sinn spiluðu Þróttarar við KA úrslitaleik um bikarinn á Húsavík. Í liði KA var öflugur smassari, Fei frá Kína. Í úrslita hrinunni og jafnri stöðu átti Fei eitt rosa smass og hávörn okkar beið. Boltinn small í gólfið af miklu afli akkurat á milli fóta Jasonar, sem var frosinn í varnarstöðunni strax á eftir. Einar Ásgeirsson var við hliðina á honum og fór að skammast í honum og segja að svona bolta yrði hann að verja. Jason, enn í varnarstöðunni, opnaði þá annað augað og kíkti í átt að Einari og sagði þessi fleygu orð: „Einar, ég er bara sóknarmaður“. Einar setti ekki framar út á spilamennsku Jassa.“

Á ferlinum varð Leifur 13 sinnum Íslandsmeistari með Þrótti, tvívegis með Ungmennafélagi Laugarvatns, bikarmeistari 13 sinnum og einu sinni með Laugarvatni.

Hann hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar og Blaksambands Íslands.