Valgerður Jóhannsdóttir ,1988 -, hóf að æfa knattspyrnu með Þrótti sumarið 1999, þá 11 ára gömul. Á ferli sínum lék hún 247 leiki með meistaraflokki; þann síðasta sumarið 2016 og er hún leikjahæsta knattspyrnukona í sögu meistaraflokks kvenna. Þróttur hafði verið eitt þeirra liða sem fyrst tefldu fram meistaraflokki kvenna þegar fyrsta Íslandsmótið fór fram; en flokkurinn lagðist síðar af og konur fóru ekki að stunda aftur knattspyrnu í félaginu fyrr en undir. aldamót. Um aldamótin kom upp sterkur kjarni sem hélt uppi meistaraflokki næstu árin.

Á þeim árum sem Valgerður lék með liðinu fór liðið reglulega upp í efstu deild, eða alls þrisvar sinnum en því miður náði liðið ekki að festa sig í sessi. Meistaraflokkur vann 1. deildina með glæsibrag síðasta sumar og Valgerður er bjartsýn á framhaldið: „Ég held að þær eigi eftir að standa sig vel. Þær sýndu það í 1. deildinni síðasta sumar að það er mikið í þær spunnið og með styrkingu reyndra og/eða erlendra sterkra leikmanna munu þær geta náð í góð úrslit“.

Við báðum Völlu um að rifja upp eftirminnilegt atvik á löngum ferli og þá ber umspilsleikur gegn Selfossi 2010 um sæti í úrvaldseild hæst:

„Fríða Þórisdóttir fyrirliði liðsins fékk rautt spjald fyrir að stunda blak innan vítateigs á 80. mínútu. Hefði Selfoss skorað úr vítinu hefðu þær jafnað í 2-2 og ef leiknum hefði svo lokið þannig færu þær áfram á útimörkum, þar sem fyrri leikurinn á Selfossi hafði farið 1-1. Okkur leist nú ekki á blikuna og mig minnir að við höfum reynt að tefja fyrir vítaskyttunni eins og hægt var, með því að eiga við dómarann eitt, tvö og jafnvel þrjú orð. Svo fór að vítaskyttan hitti stöngina utanverða og við bættum við marki og sigruðum 3-1. Mikil dramatík og mikil gleði á Valbjarnarvellinum góða“